Fréttir

Starfsmenn hjá SR-Vélaverkstæðinu sérsmíða listaverk eftir siglfirska myndlistarmanninn Arthur Ragnarsson – Myndir og vídeó

Starfsmenn hjá SR-Vélaverkstæðinu sérsmíða listaverk eftir siglfirska myndlistarmanninn Arthur Ragnarsson

Þessa dagana eru starfsmenn hjá SR-Vélaverkstæðinu að vinna við listaverk eftir siglfirska myndlistarmanninn Arthur Ragnarsson, en listaverkið er minnisvarði um þátt síldarstúlkna í íslensku atvinnu- og efnahagslífi á síðustu öld.

Listaverkið er gert úr sérstöku stáli sem norðlenskt veðurfar, sjóselta, rok, rigning, snjór og frost, vinnur ekki á. Þessi sérsmíði er mikil nákvæmnisvinna því engir tveir hlutir eru eins.

Það er ríkisstjórnin sem veitti 15 milljóna króna styrk til minnisvarðans og verður minnisvarðinn staðsettur á sérbyggðu plani við Síldarminjasafnið á Siglufirði. Síldarminjasafnið er eitt stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga.

Í ár eru liðin 120 ár frá því að Norðmenn hófu síldveiðar frá Siglufirði en síldveiðar við Ísland hófust fyrir rúmum 150 árum. Fyrirhugað er að minnisvarðinn verði vígður í lok júlí með veglegri helgardagskrá á Siglufirði þar sem framlag síldarstúlkna verður sérstaklega heiðrað.

Þegar mest var á síldarárunum voru síldarstúlkurnar á Siglufirði um þúsund talsins og voru þær tilbúnar til að bjarga verðmætum dag og nótt, hvernig sem viðraði.

Með fylgja myndir frá smíði listaverksins en hægt er að fylgjast með á facebook síðunni: Síldarstúlkan á Siglufirði.

Sjá nánar á www.arthurra.se

Myndir

Starfsmenn hjá SR-Vélaverkstæðinu sérsmíða listaverk eftir siglfirska myndlistarmanninn Arthur Ragnarsson

Starfsmenn hjá SR-Vélaverkstæðinu sérsmíða listaverk eftir siglfirska myndlistarmanninn Arthur Ragnarsson

Vídeó